John Earl Kort Hill

John Earl Kort HillJohn Earl Kort Hill er fjórði í röð þeirra leikmanna sem halda skallaboltanum á lofti og tók hann við boltanum af Óskari Gunnarssyni sem skallaði boltann hressilega áfram.

John E. K. Hill, betur þekktur sem Denni lögga, spilaði allan sinn feril með Reyni og lék með mfl. á árunum 1958 – 1973.

Denni lék í framlínunni og þótti mikill markaskorari. Hann gaf tóninn strax í sínum fyrsta mfl. leik þar sem hann skoraði og má segja að hann hafi haldið uppteknum hætti allt þar til hann setti skóna á hilluna margfrægu. Rannsóknarvinna Denna löggu hefur örugglega komið honum að góðum notum við skráningu þeirra mynda sem eru í vörslu hans og varða Reyni í gegnum tíðina. Kom hann færandi hendi og gaf félaginu innrammaða mynd frá árinu 1955. Hann sagði hana sóma sér mikið betur í vörslu félagsins. Auk þess sem hann sagðist hæglega geta skrifað heila bók um gömlu góðu dagana. Við þökkum John Hill kærlega fyrir og vindum okkur í leikskýrslu framherjans.

Fullt nafn?
John Earl Kort Hill.

Gælunafn?
Denni.

Aldur?
70 ára.

Giftur/sambúð?
Giftur Þórunni Kr Guðmundsdóttir.

Börn?
Þrjár dætur og son búsettan í Færeyjum.

Foreldrar?
Lauey Svala Kortsdóttir og John Paul Hill.

Hvar varstu alinn upp/búsettur í Sandgerði/búsettur núna?
Akri í Sandgerði, bjó á Bjarmalandi í fjölda ára og er búsettur núna í Innri-Njarðvík.

1962

Ungir og efnilegir drengir á æfingu í samkomuhúsinu í mars 1962. Undirritaður þjálfaði flokkinn

Norðurbær eða Suðurbær?
Norðurbær.

Hvaða stöðu spilaðirðu?
Hægri útherji, hægri framherji og innherji.

John Earl Kort Hill

John Hill fékk bikar fyrir að hafa sýnt mestu framfarir árið 1960

Hvenær lékstu þinn fyrsta meistaraflokksleik?
Fyrsti meistaraflokksleikur minn var árið 1958 eða 1959. Þannig var að meistaraflokkur Reynis vara að fara til Vestmannaeyja til að spila þar á þjóðhátíð á móti Tý. Þá var ég 14 eða 15 ára. Þegar liðið var að fara með rútunni til Reykjavíkur kom í ljós að einn úr liðinu forfallaðist og var ég þá í snarhasti beðinn um að koma með, varð ég að vera mjög fljótur að hafa mig til þar sem liðið þurfti að ná flugi til Eyja. Það þurfti ekki annað en að láta niður fótboltaskóna, eitthvað af fatnaði og peninga. Það tókst í tíma og vorum við í Eyjum í fjóra eða fimm daga. Spiluðum við einn leik sem ég man ekki hvernig endaði í tölum en mig minnir að við höfum sigrað. Ég man þó að ég skoraði eitt mark og eftir þetta spilaði ég alltaf með meistaraflokknum.

Með hvaða liðum lékstu á ferlinum?
Ég spilaði allan minn feril með Reyni utan eitt sumar sem ég spilaði með svokölluðu suðurnesjaúrvali, en þá var ég í þriðja flokk. Úrvalið samanstóð af strákum úr Sandgerði, Garðinum og  Njarðvík. Við vorum þrír til fjórir úr hverju bæjarfélagi. Strax vorum við sendir í Íslandsmótið með litla sem enga samæfingu enda töpuðum við oftast með tveggja stafa tölu en við létum það ekki á okkur fá, þetta var svo gaman. Búningarnir voru eldrauðir, rauð peysa og rauðar buxur, í brjóstið voru saumaðir hvítir stafir ÍS. Við vorum því kallaðir ÍS félagið. Nýlátinn er félagi úr þessu liði, Guðjón Helgason (Gutti), Hann spilaði með Njarðvík. Frábær drengur og gaman að spila með honum. Blessuð sé minning hans. Á þessum tíma lágu þeir í mér, þeir Hafsteinn Guðmundsson og Siggi Steindórs og báðu mig um að koma og spila með Keflavík, þar hefði ég miklu fleiri tækifæri en hjá Reyni. Mér fannst það vera allt að því föðurlandssvik að fara í annað félag og neitaði ávallt.

Hvað skoraðir þú mörg mörk á ferlinum?
Ekki veit ég hvað ég skoraði mörg mörk á ferlinum enda skráði ég það ekki niður en þau voru ansi mörg. Ég gróf þó upp bók þar sem ég hafði skráð leiki Reynis frá 8. maí 1961 til 3. júlí 1966. Alls spilaði meistaraflokkur 55 leiki á þessu tímabili og skoraði ég 38 mörk. Einnig eru skráningar í bókinni um alla leikmenn og stöður þeirra í hverjum leik. Til gamans þá fylgir hér með hvernig liðið var skipað í fyrsta leiknum sem ég skráði. Leikurinn var gegn KR og fór fram á KR vellinum þann 8. maí 1961. Fyrirliði var Eiríkur Helgason og dómari var Ellert Schram. Leikurinn fór 3-1 fyrir Reyni.

Markvörður:
Gottskálk Ólafsson, Stórhöfða.

Hægri bakvörður:
Kári Sæbjörnsson, Bergholti.

Vinstri bakvörður:
Magnús Gíslason, Garðinum (Hann var í Reyni)

Mið framvörður:
Gunnlaugur Gunnlaugsson, Tungu.

Hægri framvörður:
Ólafur Gunnlaugsson, Lækjamótum.

Vinstri framvörður:
Ólafur Stefánsson, Sunnuhvoli.

Mið framherji:
John Hill, Akri.

Hægri innherji:
Vilhjálmur Ólafsson, Stórhöfða.

Vinstri framherji:
Eiríkur Helgason, Skeljabergi.

Hægri útherji:
Sigurður Guðnason, Breiðabliki.

Vinstri útherji:
Björn Maronsson, Lágafelli.

Varamaður:
Rúnar Marvinsson, bjó við Túngötuna.

Mörkin skoruðu:
Vilhjálmur Ólafsson, Eiríkur Helgason og Björn Maronsson.

Guunlaugur Gunnlaugsson

Guunlaugur Gunnlaugsson á leið frá Þórshöfn til Suðureyja í Færeyjum 1960. Stúlkan sem stendur hægra megin á bak við hann er Sólrún Vest

Veistu hve marga leiki þú spilaðir í mfl.?
Ekki veit ég heldur hvað ég spilaði marga leiki með meistaraflokki. Ég held ég hafi spilað alla leiki með meistaraflokki frá 14-15 ára aldri og til rúmlega þrítugs.

Eftirminnilegasta dómaraatvikið?
Eitt eftirminnilegasta dómaraatvikið var þegar við vorum að spila á grasvellinum í Njarðvík, vorum líkega að spila við Njarðvík. Dómarinn rak Henrik Jóhannesson (Eskild) út af fyrir brot. Henrik harðneitaði að fara út af og hótaði dómarinn þá að lauta leikinn af en eftir að leikmenn Reynis höfðu rætt við hann þá samþykkti hann að fara út af og gekk af stað. Þá kallaði einhver áhorfandinn til hans og sagði; „Ég trúi því ekki að þú látir reka þig út af“ Henrik svaraði; „nei for helvede, það geri ég ekki“ snéri hann síðan við inn á völlinn og neitaði að láta reka sig út af. Dómarinn flautaði þá leikinn af.

Vilhjálmur Ólafsson

Vilhjálmur Ólafsson skorar mark gegn KR árið 1958 eða 1959

Eftirminnilegasta markið sem Reynir skoraði?
Þá vorum við einnig að spila í Njarðvík. Hafsteinn Júlíusson var þá markmaður hjá okkur og var hann þekktur fyrir að sparka mjög langt frá marki. Eitt sinn eftir harða sókn andstæðinganna varði hann vel og sparkaði síðan út, mjög hátt og langt. Hörður Jóhannsson sem þá var senter og mjög fljótur að hlaupa, var á okkar vallarhelming, ekki langt frá miðjunni. Hann tók strax sprettinn að marki andstæðinganna og inn fyrir vörnina. Rétt utan við vítateig virtist boltinn ætla að koma niður en Hörður smellhitti boltann með ristinni og skoraði gullfallegt mark og það án þess að boltinn snerti jörðina eftir útspark Hafsteins.

Eftirminnilegasta markið sem Reynir fékk á sig?
Þá held ég að við höfum verið að spila á Sandgerðisvelli í hávaðaroki og vorum við að spila á móti vindi. Ekki man ég hver var í markinu en hann reyndi að sparka út en hitti boltann mjög illa þannig að hann fór beint upp í loftið. Skipti það engum togum að boltinn sveif yfir markmanninn og beint í markið.

4. flokkur Reynis 1955

4. flokkur Reynis 1955 eða 1956. Aftari röð frá vinstri: Vilbergur Jónsson þjálfari, Óskar Gunnarsson, Kári Sæbjörnsson, Aðalsteinn Guðnason, Gunnlaugur Gunnlaugsson þjálfari, Helgi Ármannsson, Rúnar Marvinsson, Björn Sigurðsson, Eiríkur Helgason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: John Hill, Loftur Þorsteinsson, Ægir Axelsson, Svanur Tryggvason og Gottskálk Ólafsson.

Varstu hjátrúarfullur fyrir leiki og hvernig þá?
Ég held að ég hafi ekki verið hjátrúarfullur fyrir leiki, spennan var svo mikil.

Hvaða liði hefðir þú ekki getað hugsað þér að spila með?
Ég hef aldrei hugsað út í það, það komst ekkert annað að en Reynir.

Erfiðasti andstæðingur?
Þeir voru margir, t.d. Sigurður Albertsson ÍBK og Bjarni Felixsson KR.

Auðveldasti andstæðingur?
Man ekki eftir neinum auðveldum, þeir voru allir erfiðir.

Eftirminnilegasti samherjinn?
Henrik Jóhannesson (Eskild), Gunnlaugur Gunnlaugsson og Jónharður Jakobsson.

John Earl Kort Hill

John Hill skorar á móti VB í Færeyjum árið 1965

Eftirminnilegasti leikurinn?
Fyrsti leikurinn sem ég lék í Færeyjum 1960. Það var tilfinningamikið að spila á erlendri grund.

Mestu vonbrigðin?
Þegar við töpuðum leik.

Grófasti samherjinn?
Enginn samherja minna var grófur.

Hver var mesti höstlerinn í Reynisliðinu?
Þeir voru nokkrir, nefni engin nöfn.

Hefurðu skorað sjálfsmark?
Man það ekki en hef örugglega skorað sjálfsmark.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik?
ReynirVið vorum að spila við FH og var Albert Guðmundsson spilandi þjálfari þeirra. Hann var þá nýkominn úr atvinnumennsku í Frakklandi (er fyrsti atvinnumaður Íslands í knattspyrnu). Eitthvað gekk illa hjá FH og fór það í taugarnar á Alberti og ekki síst dómaranum Páli Jónssyni úr Keflavík (síðar Sparisjóðsstjóri). Fljótlega eftir að síðari hálfleikur hófst, kallaði glöggur áhorfandi til Páls og sagði FH inga vera tólf inni á vellinum. Páll stöðvaði leikinn og allir Reynismenn hættu strax leik en FH ingarnir voru á sífelldum hlaupum um allan völl og reyndist erfitt að telja þá. Það var ekki fyrr en Páll hafði marg flautað sem þeir loks stoppuðu og hægt var að slá tölu á þá. Kom í ljós að FH ingarnir voru tólf og var einum þeirra umsvifalaust vísað út af. Á þessum tíma báru allir mikla virðingu fyrir Alberti, hann var knattspyrnuhetja Íslands, en Páll dómari lét það ekki á sig fá. Það gerðist svo að Páll dæmdi fríspark á Albert sem mótmælti harðlega en Páll stóð fastur á sínu, „fríspark skal það vera“. Þá sauð upp úr hjá meistaranum. Hann rauk að Páli og sagði; „Ætlar þú litli minn að kenna mér knattspyrnu?“ Páll svaraði um hæl; „já það ætla ég að gera og virðist ekki vanþörf á“ tekið skal fram að Páll var frekar smávaxinn. Ég man ekki betur en að Reynir hafi unnið leikinn. Það skal tekið fram að Albert var mjög hliðhollur Reyni og gaf hann félaginu nokkra bikara sem síðan var keppt um, m.a. gaf hann a.m.k. tvo bikara í keppni milli Reynis og VB.

Eitthvað sem þú vilt bæta við?
Á þessum fyrstu árum sem ég spilaði með meistaraflokki var oft erfitt að ná saman í lið, ef einn forfallaðist þá var allt í steik. Eitt sinn vorum við að fara til Ísafjarðar og fórum með áætlunarrútu frá Sandgerði og var beðið í ofvæni á hverri stoppistöð til að sjá hverjir kæmu með. Þegar rútan loks lagði af stað til Reykjavíkur þá kom í ljós að við vorum aðeins níu.  Vonlaust þótti að fljúga til Ísafjarðar með aðeins níu menn. Þegar til Reykjavíkur kom hittum við Guðmund Guðmundsson sem lék með ÍBV og var hann eftir umleitan strax tilbúinn að koma með vestur. Þá vantaði aðeins einn.
Guðmundur kannaðist við fótboltamann frá Akureyri sem var staddur í Reykjavík, hringdi í hann, sem var til í að koma með. Hann var kallaður Gógó en hét Ragnar. Við flugum síðan vestur í Catalina flugbát. Eitt er mér sérstaklega minnisstætt úr þessari ferð. Þannig háttaði til að hornið á einu húsinu á staðnum stóð um einn metra inn á völlinn við miðlínu. Ari Einarsson frá Klöpp spilaði þá á kantinum og þurfti hann að hlaupa fyrir horn þegar hann óð upp kantinn. Hann stakk því upp á því í hálfleik að hann myndi fela sig bak við hornið og þegar við værum í sókn þá myndi hann skjótast upp kantinn. Ari var mjög gamansamur og gaman að spila með honum. Takið skal fram að á þessum tíma kostuðum við sjálfir allar okkar ferðir.

Ég óska Reyni og Reynismönnum öllum góðs gengis í framtíðinni og veit að félagið er á réttri leið. Einu sinni Reynismaður og ávallt Reynismaður.

Ef þú mættir breyta einni reglu í fótbolta hverju myndir þú breyta?
Ég læt aðra um þær pælingar.

Uppáhaldslið í enska boltanum?
Manchester United.

Uppáhaldknattspyrnumaður allra tíma?
Enginn uppáhalds.

Besti knattspyrnumaður fyrr og síðar?
Hef ekki skoðun á því en líklega Lionel Messi.